Wednesday, October 19, 2011

Fast þeir sækja sjóinn, Suðurnesjamenn.

Ég er nýfluttur á Suðurnesin, nánar tiltekið á Ásbrú. Það verður að segjast eins og er að það var í raun með hálfum huga sem ég gerði það. Bölmóður og barlómur sem mér bárst til eyrna drógu úr mér kjarkinn. Einelti í skólum, atvinnuleysi, sóun opinberra fjármuna, gjaldþrot og almennur aumingjaskapur var það orðspor sem samfélagið hér hafði á sér. Eftir aðeins tveggja mánaða búsetu hef ég komist að því að raddirnar hljóma öðruvísi hér á Suðurnesjum en utan þeirra.
Allir viðurkenna að samfélagið hér hefur orðið fyrir miklum áföllum. Til að "hjálpa" hafa streymt hingað ráðherrar, þingmenn, embættismenn og sjálfskipaðir sérfræðingar til að segja fólki hér hvað því er fyrir bestu og hvað því beri að gera. En - fáir hlustar á heimamenn og það sem þeir hafa til málana að leggja. Stærsta verkefnið er að FÁ að hrinda í framkvæmd öllum þeim hugmyndum sem íbúar hér hafa til þess að samfélagið standi jafnfætis öðrum landshlutum. Eftir að hafa haft eyru og augu opin er ég kominn á þá skoðun að ef Suðurnesjamenn fengju frið til að gera það sem þeir telja að geti orðið þeim til hagsbóta væri staðan allt önnur. Eins og einn ágætur maður hér orðaði það; við erum með fulla vasa af góðum ráðum og úttroðin veski af loforðum, en leyfið okkur að gera það sem við teljum okkur fyrir bestu.